Óvenjumikið vetrarríki hefur verið hér sunnanlands allt frá því í byrjun desember og frosthörkur meiri en um langt árabil. Frostið hefur farið allt niður undir 15 gráður hér við Hafnarfjarðarhöfn og upp undir 20 gráður í mínus í Straumsvík.
Ekki er óvenjulegt að það leggi í smábátahöfninni yfir háveturinn, þar sem ferskt vatn úr Mössulæk rennur syðst inn í höfnina. Hitt er óvenjulegra að Fjörðinn leggi meira og minna allt út undir hafnargarða. Þykkur ís er við hafnarkanta allt út undir flotkví og mældist ísinn við Suðurbakka nú í morgun 15. janúar, um 15 cm. þykkur og um 10 cm. þykkur utar í höfninni.
Dráttarbáturinn Hamar þurfti að brjóta sér leið í gegnum ísbreiðuna í innri höfninni og ekki tók langan tíma að frjósa saman að nýju. Þykkur snjóskafl var framan við Suðurbakka þar sem heimilað var að losa tímabundið snjó úr íbúahverfum bæjarins.