Sagan

Hafnarfjarðarhöfn er samkvæmt heimildum ein elsta höfn landsins. Hafnarfjarðar er meðal annars getið í landnámu sem góðrar hafnar og skipalægis frá náttúrunnar hendi.

Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann í mynni Faxaflóa. Fann Flóki rekinn Hval við eyri og nefndi Hvaleyri. Hefur Hrafna-Flóka verið reystur minnisvarði hæst uppi á Hvaleyri, með góðri aðkomu fyrir ferðamenn.

Hafnarsjóður Hafnarfjarðar var stofnaður formlega 1. janúar 1909 sjö mánuðum eftir stofnun Hafnarfjarðarbæjar, sem sjálfstæðs bæjarfélags.  Strax var mikill hugur í Hafnfirðingum í uppbyggingu hafnarinnar og var hafskipabryggja tekin í notkun árið 1913 og má geta þess að Gullfoss, flaggskip HF Eimskipafélags Íslands, lagðist í fyrsta sinn við bryggju á Íslandi, þegar hann lagðist við hafskipabryggjuna í Hafnarfirði árið 1915.

Næstu hafnarframkvæmdir voru bygging Nýju bryggjunnar, 190 m. langrar trébryggju árið 1930 og síðar var farið í að verja innri höfnina með byggingu tveggja stórra hafnargarða að norðan og sunnanverðu í Firðinum.  Norðurgarðurinn var byggður á árunum 1941-48 og Suðurgarðurinn ásamt olíukeri og þverkeri á árunum 1949-53.

Fyrsti stálþilskanturinn í höfninni var  Norðurbakkinn, 173 m. langur sem kom sunnan við gömlu hafskipabryggjuna árið 1960 og hann var síðan lengdur í um 250 metra árið 1969.

Framkvæmdir við hafnargerð í Straumsvík hófust  árið 1967 og var lokið 1969 alls 220 m. hafnarbakki.  Síðar var byggður nýr viðlegukantur í austanverðri Straumsvík  árið 1997 sem eru m 100 m. langur.

Í lok sjöunda áratugarins hófust framkvæmdir í suðurhöfinni við Óseyri þegar sett var niður flotbryggja og jafnframt byggð nýr fiskiskipabryggja, Óseyrarbryggja með nærri 300 m. viðlegu.  Næstu ár hófst undirbúningur frekari hafnarframvkæmda á þessu nýja hafnarsvæði, en Suðurbakki alls 430 m. langur með 8 m. dýpi var byggður í 4 áföngum á árunum 1980 til 1992.   Á sama tíma var úbúin góð aðstaða fyrir smábáta í svonefndri Flensborgarhöfn innst við Óseyri þar sem viðlega er fyrir um 100 smábáta.

 Næsti stóri áfangi í uppbyggingu á hafnarsvæði Hafnarfjarðarhafnar hófst skömmu fyrir síðustu aldamót með landfyllingum utan við Suðurgarðinn í átt að Hvaleyri og Hvaleyrarlóni, alls um 22 hektrarar lands. Jafnframt var byggður 600 m. langur brimvarnargarður.

Á nýja hafnarsvæðinu er 400 m. stálþilsbakki þar af 200 m. með 10 metra dýpi og vestast við brimgarðinn er lægi fyrir tvær flotkvíar til skipaviðgerða.

Árið 2018 hófust framkvæmdir við byggingu Háabakka, 130 m. stálþilsbakka milli Suðurbakka og Óseyrarbryggju með 8 m. dýpi en við bakkann verður Hafrannsóknarstofnun með sínar höfuðstöðvar.

Í undirbúningi er stækkun á flotbryggjum fyrir skútur í Flensborgarhöfn og endurgerð og uppbygging á öllu opna hafnarsvæðnu frá Háabakka og út fyrir gamla slippsvæðið við Vesturhamar.  Fyrir liggja drög að rammaskipulag fyrir þetta svæði og stefnt að því að framkvæmdir geti hafist við enduruppbyggingu í Suðurhöfinni og stækkun smábátahafnarinnar innan tíðar.