Umtalsvert tjón varð á grjótgarði og landfyllingum við Austurbakka í Straumsvík í ofviðrinu sem gekk yfir í gærkvöld og nótt.
Talið er að allt að 350 rúmmetrar að fyllingarefni og stórgrýti hafi sópast burt og sjór hefur náð að éta sig langt inn undir þekjuna við sunnanverða bryggjuna. Þá hefur sópast upp möl og grjót um bryggjusvæðið og inn á nærliggjandi gámasvæði. Ljóst er að gríðarleg átök hafa verið í sjógangi þarna en samkvæmt vindmælingum sló upp í 35 metra vindhraða þegar mest gekk á.
Stöðugt álag var á hafnarsvæðið við Austurbakka í ríflega hálfan sólarhring af NNV en það er versta áttina sem við er að eiga í Straumsvík. Starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar og ráðgjafar hafa verið að taka út tjónið í morgun ásamt fulltrúum frá Náttúrhamfaratryggingum Íslands. Undirbúningur er þegar hafinn að lagfæringum til að tryggja örugga umferð um þennan hluta hafnarsvæðisins í Straumsvík.