Mikil ásókn hefur verið í viðlegupláss við flotbryggjurnar í Flensborgarhöfn og hafa öll pláss verið meira og minna fullbókuð það sem af er þessu ári.
Alls eru um 90 viðlegurými við flotbryggjurnar neðan við Flensborg og innst við Fornubúðir. Að auki er flotbryggja fyrir skútur framan við aðstöðu Siglingaklúbbsins Þyts. Sú bryggja var stækkuð á sl. sumri og þar er nú rými fyrir um 15 skútur og komast færri að en vilja.
Fyrr á þessu ári var samþykkt rammaskipulag fyrir hafnarsvæðið við Flensborg þar sem m.a. er gert ráð fyrir nýrri smábátahöfn austan við slippinn, undir Vesturhamri. Siglingaklúbburinn mun flytja aðstöðu sína að því svæði en þar er gert ráð fyrir rými fyrir allt að 100 smábáta og skemmtibáta. Vinna við gerð deiliskipulags af svæðinu mun hefjast nú á næstunni, en stefnt er að því að framkvæmdir geti farið af stað á síðari hluta komandi árs.