Skipulagsmál og framtíðarsýn fyrir Flensborgarhöfn, Óseyrarsvæði og Fornubúðir verða eitt stærsta verkefni hafnarstjórnar á nýju ári. Hugmyndasamkeppni um þetta skipulagssvæði, sem er allt innan opins hafnarsvæðis, fór fram á fyrri hluta árs 2018 og hlutu tvær tillögur saman 1.-2. verðlaun. Önnur tillagan kom frá sænskri arkitektastofu og hin frá hollenskri.
Hafnarstjórn hefur í samvinnu við skipulags- og byggingaráð sett niður samráðsnefnd til að vinna að gerð rammaskipulags fyrir svæðið í samstarfi við verðlaunahafa, lóðarhafa og aðra hagsmunaðila á svæðinu.
Kynningarfundir og almenn umræða fór vel af stað með fundarhöldum í nóvember sl. og næstu samráðs- og kynningarfundir eru áætlaðir nú um miðjan janúar. Stefnt er að því að endanleg tillaga að rammaskipulagi fyrir svæðið liggi fyrir í byrjun maí nk.