Stærstu framkvæmdaverkefni Hafnarfjarðarhafnar á komandi ári verða framhald orkuskipta með öflugri tengibúnaði við bæði Hvaleyrarbakka og Suðurbakka, en framkvæmdir eru komnar vel á veg og gengið út frá því að hægt verði að tengja bæði frystiskip, fraktskip og farþegaskip í landtengingu frá og með miðju næsta ári.
Heildarfjárfestingar á árinu 2022 samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun eru áætlaðar uppá liðlega 260 milljónir. Auk framkvæmda við orkuskipti er ráðgert að hefja framkvæmdir við nýja Hamarhöfn undir Vesturhamri og jafnframt landfyllingar austan við gamla slippsvæðið. Einnig verður haldið áfram við endurbyggingu Norðurgarðsins, með grjótfyllingum að utanverðu og uppsteypu á garðinum. Jafnframt verður farið í að ljúka frágangi á fyllingarsvæði utan Suðurgarðs og koma þar upp aðstöðu fyrir viðhald og smærri viðgerðir á minni bátum.
Einnig er í fjárfestingaráætlun fyrir 2022 og langtímaáætlun gert ráð fyrir fjármunum til hönnunar og undirbúnings uppbyggingar á nýju hafnarsvæði í Straumsvík. Stefnt er að því að verklegar framkvæmdir á svæðinu geti hafist ekki síðar en árið 2024.