Veðurhamur síðustu sólarhringa hefur skapað mikið álag á öllum hafnarbökkum í Hafnarfjarðarhöfn. Nánast má segja að höfnin hafi verið yfirfull í byrjun vikunnar þegar á þriðja tug togara og flutningaskipa lágu við festar í öllu bryggjuplássi sem fyrirfannst í höfninni.
Stífar suðlægar áttir og mikil og djúp undiralda gerði mörgum skipum erfitt með að komast að bakka þegar veðrið var sem verst og þurfi aðstoð dráttarbáta í nokkrum tilfellum. Þá slitu nokkrir bátar enda, en ekkert tjón varð á mannvirkjum eða skipum.
Djúp flóðalda gekk inn á athafnasvæði Gasfélagsins utan við höfnina í Straumsvík, en áhlaðningur var mikill í þessu stórveðri. Skarð kom í sjóvarnargarð og flæddi drjúgt inná land, en engar skemmdir urðu að ráði.