Grænlenski línuveiðarinn Masilik er kominn í öruggt skjól í Hafnarfjarðarhöfn, en skipið strandaði í gærkvöld úti fyrir Vatnsleysuströnd á leið sinni til Hafnarfjarðar.
Svo heppilega vildi til að varðskipið Freyja og dráttarbátar Hafnarfjarðarhafnar voru rétt að ljúka við að koma togaranum Janusi að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn þegar tilkynning barst um að Masilik væri strandaður. Freyja og Hamar voru því fljót á vettvang, en þar sem lágsjávað var og erfitt að nálgast skipið þar sem það lá á grynningum úti fyrir Vatnsleysuströndinni var ákveðið að bíða með björgunaraðgerðir þar til færi að flæða að síðar um nóttina.
Freyju tókst að losa Masilik af strandstað um miðja nótt og kom með skipið að ytri höfninni í Hafnarfirði undir morgun þar sem dráttarbátarnir Hamar og Þróttur tóku við og komu skipinu að bryggju. Nokkur sjór var í lestum skipsins og fóru starfsmenn Köfunarþjónustunnar um borð til að þétta skipið. Þá er ljóst að einhverjar skemmdir hafa orðið á stýribúnaði skipsins.