Framkvæmdir eru hafnar við lokaáfanga endurbyggingar Norðurgarðsins með því að hækka grjótvörn utan við garðinn og gera garðinn kláran fyrir uppsteypu síðar í sumar. Lokaverkið verður síðan frágangur á yfirborði og aðgengi að garðinum sem verður opinn útvistarstaður.
Framkvæmdir við grjótfyllingar munu standa í nokkrar vikur. Notast er við stóra gröfu og efni safnað í grjótfyllingu ofan við garðinn.
Takmarka þarf umferð við ysta hluta göngustígsins á vinnutíma. Stefnt er að uppsteypu á garðinum á komandi sumri. Þá þarf að takmarka umferð um stíginn á meðan steypuframkvæmdir standa yfir.
Framkvæmdir við frágang á trédekki á yfirborði garðsins munu eiga sér stað á komandi hausti. Þær verða einnig kynntar betur þegar nær dregur. Ekki þarf að takmarka umferð um göngustíginn nema meðan efni er flutt á staðinn. Rík áhersla verður lögð á að umhirða á svæðinu verði góð og verður úrgangsefni fjarlægt jafnóðum.