Fjölmenn sendinefnd frá Nuuk Maritime Network á Grænlandi átti fund með hafnarstjóra og yfirhafnsögumanni Hafnarfjarðarhafnar nú í vikunni og kynnti sér starfsemi og umsvif hafnarinnar.
Hafnarfjarðarhöfn hefur átt mjög góð samskipti við grænlenskar útgerðir á umliðnum árum en þarlendir togarar hafa viðkomu og landa í Hafnarfjarðarhöfn allt að 50 til 60 sinnum á ári og eru því mikilvægir viðskiptavinir hafnarinnar. Þegar sendinefndin kom við í Hafnarfirði hitti vel á þar sem verið var að landa úr grænlenska togaranum Maselik.
Í heimsókninni voru sérstaklega kynntar fyrir Grænlendingum þær nýju háspennu landtengingar sem teknar voru í notkun á sl. sumri. Margir af þeim grænlensku frystitogurum sem landa hér í höfninni hafa sýnt áhuga á að koma upp tengibúnaði og nýta þá þjónustu sem stendur til boða við landtengingar stærri skipa. Gunnar Sæmundsson frá Sætækni og ráðgjafi hafnarinnar kynnti tengibúnaðinn við Hvaleyrarbakka þar sem verið var að landa úr Maselik þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.