Heildartekjur Hafnarfjarðarhafnar á sl. ári námu um 874 milljónum króna og jukust um nærri 120 milljónir milli ára, eða liðlega 15%. Rekstrarhagnaður var liðlega 261 milljónir.
Aukning hefur verið í löndun á bæði ferskum og frystum fiski, auk þess sem vöruflutningar hafa farið vaxandi og hátt álverð á heimsmarkaði tryggt hækkun vörugjalda frá álversmiðjunni í Straumsvík. Þá hefur einnig verið mikil umferð skipa til viðgerða og viðhalds á hafnarsvæðinu.
Af rekstrartekjum voru almenn hafnargjöld uppá nær 583 milljónir og þjónustugjöld um 160 milljónir. Lóðaleigutekjur voru um 93 milljónir. Rekstrargjöld voru um 515 milljónir, þar af laun og launatengd gjöld um 260 milljónir.
Veltufé frá rekstri nam nær 390 milljónum og handbært fé í árslok var um 607 milljónir. Lantímaskuldir voru um 270 milljónir þar af lífeyrisskuldbinding uppá 212 milljónir. Eigið fé hafnarsjóðs nam um 3.9 milljörðum um sl. áramót og hafði aukist milli ára um nær 300 milljónir
Fjárfestingar á árinu 2022 voru uppá nær 207 milljónir, að stærstum hluta vegna nýs háspennu rafkerfis vegna landtenginga skemmtiferðaskipa og frystitogara við Hvaleyrarbakka og Suðurbakka.