Óhætt er að segja að lífið sé að færast aftur í eðlilegt horf, þegar fyrstu skemmtiferðaskip sumarsins eru farin að leggjast að bryggju að nýju hér í Hafnarfjarðarhöfn.
Í síðustu viku kom fyrsta skip sumarsins, Le Dumont-d´Urville frá Ponant skipaútgerðinni í Frakklandi, en þetta var jafnframt fyrsta skipið sem kemur til landsins á þessu ári, en von er á 15 skipakomum í sumar, allt fram í miðjan september.
Ponant skipin hafa heimahöfn hér í Hafnarfirði milli þess að þau sigla í viku umhverfis landið. Þetta skip er nýsmíði, um 10 þús. brt og tekur tæplega 200 farþega og í áhöfn eru um 130 manns. Í þessari fyrstu ferð voru um 150 farþegar, en góðar bókanir eru í ferðir skipsins í sumar.
Allir farþegar koma með flugi erlendis frá en farþegaskipti fara fram hér í Hafnarfirði á miðvikudögum. Skipið kemur að jafnaði til hafnar á þriðjudagsmorgunum og leggur í nýja hringferð umhverfis landið á miðvikudagskvöldum.