Franska farþegaskipið Le Bellot kom til Hafnarfjarðar í morgun á frídegi verslunarmanna, en þetta er fyrsta farþegaskipið sem kemur hingað á þessu sumari og mögulega það eina, en ráðgert var að um 30 farþegarskip kæmu til Hafnarfjarðar á þessu sumri.
Le Bellot er í eigu Ponant útgerðarinnar sem hefur verið með „heimahöfn“ sína hérlendis í Hafnarfirði undanfarin sumur þar sem teknar hafa verið vistir og höfð farþegaskipti fyrir hringferðir um landið. Le Bellot er eitt af nýjustu skipum útgerðarinnar, fullsmíðað í Noregi fyrr á þessu ári.
Skipið hefur verið á siglingu umhverfis landið síðustu 3 vikur en það kom fyrst til hafnar í Reykjavík um miðjan júlí. Um borð eru 38 farþegar og 118 manna áhöfn. Le Bellot mun verða í höfn í Hafnarfirði fram á miðvikudagskvöld en nýir farþegar munu koma um borð síðdegis á miðvikudag og skipið halda síðan í sína síðustu siglingu að sinni við Íslandsstrendur.