Rammaskipulag samþykkt

Loftmynd Flensborgarhöfn
Loftmynd Flensborgarhöfn

Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu að rammaskipulagi fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði sem er stefnumótandi framtíðarsýn um heildaryfirbragð innri hafnarsvæðisins sem nær allt frá Fornubúðum og Háabakka inn undir Vesturhamar.  Með þessu nýja skipulagi sem verður nánar útfært í deiliskipulagsvinnu er lögð áhersla á að tengja saman mannlíf og menningu og fjölbreytta starfsemi í bland við íbúðabyggð á þessu strandsvæði og ná virku samspili milli miðbæjar og hins opna hafnarsvæðis.

Vinna við gerð rammaskipulagsins hefur hvílt á herðum samráðsnefndar fulltrúa frá hafnarstjórn og skipulagsráði sem hefur starfað í um tveggja ára skeið undir forystu Kristínar Thoroddsen formanns hafnarstjórnar.  Aðrir fulltrúar í samsráðsnefndinni voru þau; Ágúst Bjarni Garðarsson, Gylfi Ingvarsson, Karolína Símonardóttir og Ólafur Ingi Tómasson.  Nefndin vann í nánu samráði við hollenska og sænska arkitektastofur sem unnu til verðlauna í samkeppni um skipulag svæðisins sem fram fór á vordögum 2018.  Einnig komu að vinnunni ráðgjafar í umferðarmálum, fulltrúar frá skipulagssviði og hafnarstjóri. 

Samráðsnefndin stóð fyrir víðtækri kynningu og umræðu um skipulagsvinnuna á verktímanum og m.a. voru haldnir 4 íbúafundir auk fjölda samráðsfunda með lóðarhöfum og rekstraraðilum á skipulagssvæðinu. 

Skipulagssvæðin í rammaskipulaginu eru þrjú: Fornubúðir sem nær frá Háagranda að Óseyri.  Óseyrarsvæði sem er nýbyggingasvæði milli Hvaleyrarbrautar og Óseyrarbrautar og Flensborgarhöfn sem nær yfir smábátahöfina og slippsvæðið að nýju legusvæði fyrir smábáta sem gerð er tillaga um undir Vesturhamri og mun bera heitið Hamarshöfn.

 

Sjá rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði

Sjá kynningarmyndband um nýtt rammaskipulag