Flensborgarhöfn - Óseyrarsvæði

Sjá fyrirliggjandi drög að rammaskipulagi - tekið er á móti ábendingum og hugmyndum til og með föstudeginum 15. nóvember. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is auk þess sem hægt er að senda hugmyndir í gegnum samráðsvettvanginn Betri Hafnarfjörð . 

Þrjú einstök svæði á einu og sama svæðinu

Um er að ræða þrjú mismunandi svæði sem þó tengjast með einum eða öðrum hætti. 

Iðnaðarhverfi verður íbúðabyggð

Á Óseyrarsvæðinu, þar sem áður var iðnaðarhverfi,  er fyrirhuguð íbúðabyggð sem hefur góða tengingu við sjóinn, slippsvæðið og miðbæinn sem og gott aðgengi að almenningssamgöngum. Þar verður hægt að bjóða upp á fjölbreyttar gerðir íbúða þar sem áhersla verður lögð á gott aðgengi hjólandi og gangandi umferðar með góðum skjólgóðum inngörðum, en bílastæði á íbúðasvæðinu eru að mestu í bílageymslum í kjallara. Á Flensborgarhafnarsvæðinu frá Kænunni til nýrrar Hafróbyggingar verður möguleiki á blandaðri starfsemi í hvaða formi sem er. 

Blönduð byggð á Slippsvæði

Slippsvæðið, frá Fornubúðum í átt að miðbænum,  er hugsað sem blönduð byggð þar sem gert er í meginatriðum ráð fyrir starfsemi á neðri hæðum og íbúum eða skrifstofum á efri hæðum. Lögð er áhersla á lávaxna byggð með ásættanlegu byggingarmagi og kvarða húsa í takt við sérkenni Hafnarfjarðar. Unnið er út frá því að greiðar göngu- og hjólaleiðir séu um svæðið til að tengja Strandstíginn við Fjarðargötuna, í raun alveg frá Norðurbakkanum að Fornubúðum í gegnum Slippsvæðið. Gert er ráð fyrir að almennings stoppistöð sé á móts við Slippsvæðið sem þjónustar íbúa, atvinnustarfssemi og ferðamenn sem heimsækja svæðið. 

Skjólgott hafnartorg og aðlaðandi afþreyingarsvæði

Á Slippsvæðinu er gert ráð fyrir skjólgóðu hafnartorgi með útsýni yfir smábátabryggjuna og miðbæinn en þær nýbyggingar sem verða á svæðinu skapa möguleika á fjölda veitingahúsum, kaffihúsum og afþreyingu af ýmsu tagi. Möguleikar á gosbrunni, leiktækum fyrir börn og aðlaðandi setsvæði verður á torginu en torgið er hugsað til að styrkja svæðið og möguleika Hafnfirðinga til að heimsækja höfnina. Þá er einnig hugað að menningarminjum og lagt til að minningin um slippinn verði með einum eða öðrum hætti gerð skil. 

Tækifæri í takt við tíðaranda

Siglingarklúbburinn færist nær miðbænum og aukast þá möguleika þeirra til að stækka og dafna. Á því svæði er einnig lagt til að setja opna heita potta og skapa þannig möguleika á að nýta svæðið til frekari tækifæra í takt við núverandi tíðaranda þ.e. sjósund eða böð. Mikil áhersla er lögð á að tengja vel miðbæinn við höfnina með gróðri, bekkjum, göngustígum og möguleikum á veitinga- og kaffihúsum sem taka á móti gestum og gangandi. Væntingar eru til að á svæðinu dafni matarmarkaður og skapandi starfsemi í bland við iðandi mannlíf og íbúa. Hafnfirsku trillurnar eiga enn sinn stað og verður bryggjum fyrr smábáta fjölgað í átt að miðbænum sem enn frekar dregur upp það mannlíf og þau sérkenni sem einkennir sögu Hafnarfjarðar.

Frestur til ábendinga og ábendingaleiðir

Tekið er á móti ábendingum og hugmyndum til og með föstudeginum 15. nóvember. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is auk þess sem hægt er að senda hugmyndir í gegnum samráðsvettvanginn Betri Hafnarfjörð.  

Leiðarljós í hönnunarsamkeppni og við gerð rammaskipulags


Að móta blandaða og þétta byggð við Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði í góðri sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi, í takti við ríka sögu og gæði staðarins. Áhersla lögð á umferð gangandi og hjólandi á svæðinu og að tryggja áfram atvinnustarfsemi og aðkomu að Suðurhöfn. Byggðin þarf að hafa sterka tengingu við sjávarsíðuna og bjóða upp á skjólrík svæði fyrir mannlíf. Sérstök áhersla er lögð á góðar tengingar við aðliggjandi byggð og miðbæinn. Stækkun smábátahafnarinnar er aðkallandi ásamt góðri aðstöðu fyrir fiskibáta, siglingaklúbb og móttöku skemmtiferðaskipa. 

Forsaga verkefnis í stuttu máli

Haustið 2016 voru drög að samkeppnislýsingu unnin sem m.a. tók til eldri tillagna, hugmynda frá opnum íbúafundi og forsögn að deiliskipulagi fyrir svæðið. Í framhaldinu var ákveðið að stækka skipulagssvæðið inn á land Óseyrar, vestan við Flensborgarhöfn. Opin hugmyndasamkeppni fór af stað í ársbyrjun 2018 og niðurstöður kynntar í upphafi sumar 2018. Fjórtán tillögur bárust í samkeppnina og mat dómnefnd tillögur samkvæmt áherslum og markmiðum samkeppnislýsingar. 

Lögð var áhersla á sterka heildarlausn fyrir allt svæðið, aðlaðandi og lifandi umhverfi og gott flæði gangandi jafn sem akandi vegfarenda. Einnig var sérstaklega horft til þess að tillagan væri með góðar tengingar að aðliggjandi svæðum, ekki síst tengingu hafnarsvæðis og miðbæjarsvæðis. Niðurstaðan varð sú að þeir aðilar í hugmyndasamkeppni sem lentu í fyrsta og öðru sæti (þrjár arkitektastofur með tvær hugmyndir) voru fengnir til að vinna saman að endanlegri mótun hugmynda fyrir svæðið enda hugmyndirnar þess eðlis og efnis að geta á góðan máta bætt hvor aðra upp. Styrkur þeirra lá annars vegar í sannfærandi tengingu við miðbæ og mótun Flensborgarhafnar og hins vegar góðri lausn annarra svæða innan samkeppnisreitsins. Sameiginlega voru þær taldar endurspegla markmið svæðaskipulags með tilliti til þéttingar byggðar á fyrirhuguðum þróunarási Borgarlínu.

Opin hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag


Allt frá árinu 2003 hefur staðið yfir, með nokkrum hléum, vinna við tillögugerð að nýju deiliskipulagi fyrir Flensborgarhöfn. Nokkrar tillögur voru kynntar árið 2009 og haustið 2014 var haldinn opinn fundur um framtíð Flensborgarhafnar. Í framhaldinu var ákveðið að vinna forsögn að deiliskipulagi fyrir svæðið. Haustið 2016 var skipaður stýrihópur fulltrúa úr hafnarstjórn og skipulagsráði Hafnarfjaðarbæjar sem vann úr forsögninni grunn að samkeppnislýsingu .

Niðurstaða þessa starfshóps var m.a. að stækka skipulagssvæðiðog væntanlegt samkeppnissvæði inn á land Óseyrar, vestan við Flensborgarhöfn. Vegna skipulagsvinnu við nýjar höfuðstöðvar Hafrannsóknarstofnunar sem nú er verið að reisa við Fornubúðir var tímasetningu samkeppninnar frestað á árinu 2017, en í nóvember það ár var samþykkt að opin hugmyndasamkeppnin yrði sett af stað í ársbyrjun 2018 og niðurstöður kynntar í byrjun sumars.

Samkeppnin var haldin í samvinnu Hafnarfjarðarbæjar, Hafnarfjarðarhafnar og Arkitektafélags Íslands. Dómnefndarfulltrúar voru tilnefndir af hafnarstjórn, skipulagsráði og Arkitektafélaginu. Dómnefndin tók til starfa í byrjun janúar sl. Alls bárust 14 tillögur í samkeppnina og mat dómnefndin tillögurnar samkvæmt áherslum og markmiðum keppnislýsingar samkeppninnar. Dómnefnd vill þakka tillöguhöfundum fyrir áhugverðar og fjölbreyttar hugmyndir sem jafnan voru skýrar og vel fram settar.

Niðurstaða dómnefndar

Við mat sitt á tillögum lagði dómnefnd megináherslu á sterka heildarlausn fyrir allt svæðið, aðlaðandi og lifandi umhverfi og gott flæði gangandi jafnt sem akandi. Einnig var sérstaklega horft til þess að tillagan væri með góðar tengingar að aðliggjandi svæðum, ekki síst tengingu hafnarsvæðis og miðbæjarsvæðis. Skapað væri mannvænlegt umhverfi á svæðinu og þróun þess væri á forsendum staðarins og drægi fram þau gæði sem hann býr yfir. Dómnefnd verðlaunar þrjár tillögur og að auki er einni tillögu veitt viðurkenning sem athyglisverð tillaga. Það er mat dómnefndar að engin ein tillaga hafi svarað að fullu því sem fram kom í keppnislýsingu en að tillögur sem valdar eru til að deila 1. og 2. sæti bæti hvor aðra upp og að saman komist þær nærri því að svara að fullu því sem var óskað eftir. Styrkur þeirra liggi annarsvegar í sannfærandi tengingu við miðbæ og mótun Flensborgarhafnar og hinsvegar góðri lausn annarra svæða innan samkeppnisreitsins. Sameiginlega nái þær einnig að spegla markmið svæðaskipulags með tilliti til þéttingar byggðar á fyrirhuguðum þróunarási Borgarlínu.