Fréttir

Þrjú skemmtiferðaskip til Hafnarfjarðar á sama degi

30. júlí 2013

Skemmtiferðaskipin ASTOR og systurskipin Le Boreal og Le Soleal komu öll til hafnar í Hafnarfirði um kl 7 að morgni þriðjudagsins 30. júlí.
Handagangur var í öskjunni við að taka á móti skipunum, binda þau og þjónusta með vatn og annað, sem beðið var um.
Milli 800 og 900 farþegar voru um borð í skipunum frá yfir 20 þjóðlöndum. Listahópur vinnuskóla Hafnarfjarðar skemmti farþegum skipanna með tónlist og dansi auk þess sem nokkrir krakkar gáfu öllum farþegum skipanna innpakkaða hraunmola með kveðju frá Hafnarfjarðarhöfn.
ASTOR fór sama dag kl 18, en Le Boreal og Le Soleal stoppuðu tvo daga og fóru miðvikudaginn 31. júlí kl 18.
Le Boreal og Le Soleal skiptu um farþega í Hafnarfirði, það er farþegarnir sem komu með skipunum fóru frá borði og flugu til síns heima, eða lengdu dvöl sína á Íslandi um nokkra daga og um borð komu aðrir farþegar, sem komu til landsins með flugi dagana áður en skipin komu í land. Þeir farþegar sigla síðan með skipunum og fara í land næst þegar skipin koma til Íslands.
Segja má að gaman sé að fá svona mörg skemmtiferðaskip í einu, en þægilegra er að dreifa þeim á fleiri daga.

Smellið á myndirnar til að stækka þær.